Sagan

Á sjómannadegi

þær minningar megi

margfalda ágætan hátíðabrag,

sem gleðja og hressa

og bæta og blessa

og bjóða upp á lifandi fagnaðardag.

 

Það gustar af mönnum

sem hlæja við hrönnum

og hreggbarðir láta ekki bila sinn dug,

en sækja til veiða

um sævanginn breiða

og sýna þar íslenskan baráttuhug.

 

Rúnar Kristjánsson

 

 

Upphaf sjómannadagsins á Skagaströnd

 

Fyrst var haldið upp á sérstakan sjómannadag í Reykjavík og á Ísafirði 6. júní 1938. Samkvæmt munnlegum heimildum var byrjað að halda upp á sjómannadaginn á Skagaströnd með kappróðri árið 1939. Sjómannadagsblaðið árið 1962 segir frá því að sjómannadagurinn hafi fyrst verið haldinn hátíðlegur á Skagaströnd árið 1940 og forvígismenn hátíðahaldanna hafi verið þeir Bogi Björnsson, Björn Jónsson og Ingvar Jónsson sem var stjórnandi hátíðahaldanna fyrstu tvo áratugina. Á dagskrá fyrstu árin var kappróður og síðan var haldin hátíðarræða af svölum Hólanesshússins. Á eftir hófst keppni í frjálsum íþróttum á Hólanesinu og síðdegis kvikmyndasýning. Um kvöldið var svo dansleikur. Í tímaritinu Ægi segir að fyrst hafi verið haldið upp á daginn árið 1941.

Skagastrandardeild Fiskifélags Íslands tók fljótlega yfir undirbúning og framkvæmd dagskrárliða og var stofnað svokallað Sjómannadagsráð sem aðallega var skipað starfandi sjómönnum og var ráðið eins konar sjálfstæð deild. Haldinn var sérstakur rekstrar- og efnahagsreikningur vegna sjómannadagsins. Það var síðan árið 1987 sem Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd tók að sér umsjón dagsins og hefur gert það síðan en hún er ein af deildum Landsbjargar.

 

Fiskifélagsdeild Skagastrandar, sem var ein af deildum Fiskifélags Íslands, hélt fundargerðabók eftir að deildin var endurreist þann 11. júní 1939 af tuttugu og tveimur félagsmönnum. Í fundargerð frá 26. apríl 1943 er eftirfarandi bókað:

„Rætt var um sjómannadaginn og var áhugi fyrir því að hafa hann sem skemmtilegastan og frekast væri kostur. Kom fram uppástunga að formenn staðarins væru fengnir til að hafa forgöngu um málið en þar sem þeir voru ekki allir í deildinni kom fram svohljóðandi tillaga: „Fundurinn samþykkir að kjósa níu menn í nefnd til þess að vinna að undirbúningi sjómannadagsins hér á Skagaströnd.“ Stungið var upp á eftirtöldum mönnum: Boga Björnssyni, Þórarni Jónssyni, Sigurði Júlíussyni, Ingvari Jónssyni, Ole Omundsen, Kristófer Árnasyni, Guðmundi Jóhannessyni, Birni Þorleifssyni og Þórarni Hjartarsyni. Var það samþykkt með öllum atkvæðum.“

Í fundargerð 29. desember 1943 er bókað: „Kosning í Sjómannadagsráð. Kosningu hlutu Þórarinn Jónsson, Þórbjörn Jónsson, Ernst Berndsen, Ingvar Jónsson, Steingrímur Jónsson, Hrólfur Jakobsson, og Ólafur Ásgeirsson. Nefndin skiptir með sér verkum.“

 

Fengið með leyfi höfundar úr bók Lárusar Ægis Guðmundssonar frá árinu 2009, Sjómannadagurinn á Skagaströnd í 70 ár, bls. 4-7.